Enn um val á frambjóðendum

Stjórnarfrumvörp sem liggja fyrir Alþingi um persónukjör fá vart afgreiðslu á þinginu 2009-2010. Aftur á móti var kjósendum gefið aukið vald í kjörklefanum til að breyta framboðslistum með nýjum lögum um kosningar til Alþingis frá árinu 2000. Kjósendur hafa í vaxandi mæli nýtt sér þennan rétt sinn, mest í síðustu kosningum sem voru haldnar vorið 2009. Lög um kosningar til sveitarstjórna hafa í þessum efnum sem flestum öðrum fylgt alþingiskosningalögum. Svo varð ekki við síðustu breytingu þeirra síðarnefnda. Því er svo að á þeim tvennum kosningum til sveitarstjórna sem þegar hafa farið fram á þessari öld svo og í þeim sem haldnar verða 29. maí 2010 að kjósendur hafa mun minni áhrif til breytinga á röð frambjóðenda en í þingkosningum. Þessu er að jafnaði öfugt farið í grannlöndum okkar.

 

Allt síðan í sveitarstjórnarkosningunum árið 1986 verður meira en helmingur kjósenda lista að vera samstíga um tilfærslu frambjóðanda til að það hafi nokkur áhrif. Sama ákvæði gilti í þingkosningum árin 1987 til og með 1999 en þá tóku við ný ákvæði eins og fyrr segir. Í Noregi gilda sömu ákvæði og í sveitarstjórnarkosningum hér um uppgjör á listum í þingkosningum en í sveitarstjórnarkosningum þar er  svigrúm kjósenda til breytinga mun meira og mega þeir meira að segja velja sér frambjóðendur af ólíkum listum.  Eftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) með kosningunum til norska Stórþingsins 14. september 2009 tók eftir þessu ósamræmi og mælti með því kjósendur fái raunverulegan (e. genuine) möguleika á breytingum á listum.

Mannleg mistök eru væntanlega ástæða þess að ákvæði um útstrikanir sátu eftir í lögum um kosningar til sveitarstjórna þegar samsvarandi ákvæðum var breytt í þingkosningalögum árið 2000. Snemma var bent á mistökin en leiðrétting hummuð fram af sér. Við erum fámenn þjóð með litla stjórnsýslu. Því þurfum við sífellt að huga að einföldum leiðum. Ættum við ekki að hafa aðeins ein kosningalög í stað a.m.k. fernra eins og nú er? Norðmenn láta sér nægja ein heildarlög en auðvitað með sérköflum um hvert afbrigðið. Sama gera margar aðrar þjóðir og alþjóðastofnanir á þessu sviði mæla með einum samræmdum lagabálki.

ÞH í maí 2010