Misvægi atkvæða eftir búsetu

Sem kunnugt er hafa kjósendur í dreifbýlinu hérlendis ætíð haft meira vægi í þingkosningum en þeir í þéttbýliskjördæmum. Með vægi er hér átt við þingsætisbrot að baki hverjum kjósanda á kjörskrá (oftast er þó viðmiðið öfugt þ.e. kjósendur að baki hverju þingsæti). Með þingkosningalögunum frá árinu 2000 og undangenginni stjórnarskrárbreytingu eru þessu misvægi sett þau mörk að vægi kjördæmis megi aldrei fara yfir tvöfalt það (100%) í neinu öðru kjördæmi.  Valdi búsetubreytingar því að svo verði skal færa til þingsæti til jöfnunar. Svo hefur tvívegis verið gert þannig að við næstu þingkosningar (2013 eða fyrr) verður búið að færa tvö sæti frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis frá því sem var við gildistöku laganna.

Lýðræðisnefnd Evrópuráðsins (Feneyja-nefndin) mælti með því 2002 að þetta misvægi færi ekki yfir 15% og frávikið frá meðaltali væri ekki yfir 10%.

Eftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem tók í fyrsta sinn út kosningar hér á landi með úttekt á þingkosningunum vorið 2009, veitti þessu misvægi athygli. Nefndin vísar til fyrrgreindra tilmæla svo og annarra sem kennd eru við Kaupmannahöfn. Síðan segir nefndin í áliti sínu: Það virðist kominn tími til að endurskoða lagákvæði um skiptingu þingsæta til að hún samræmist meginreglunni um jafnan kosningarétt.

Í Noregi er líka misvægi eftir búsetu. Nyrsti hluti Noregs sker sig úr. Þannig er mesta misvægið milli Finnmerkur í norðri og Vestfoldar í suðri. Vægi atkvæða er 2,5-sinnum meira í fyrrnefnda fylkinu en í því síðarnefnda í síðustu kosningum til Stórþingsins sem fóru fram 14. september 2009. Þetta er þó undantekning þar sem atkvæðavægið er ámóta í langflestum fylkjum Noregs.  Eftirlitsnefnd ÖSE með umræddum kosningum gefur Norðmönnum heldur mildari umsögn um þetta atriði en okkur. Um þennan þátt í norska kosningakerfinu segir hún: Huga mætti að endurskoðun stjórnarskrárákvæða um skiptingu þingsæta milli kjördæma til að hún samræmist meginreglunni um jafnan kosningarétt.

ÞH í maí 2010