Eiga auð atkvæði að hafa eitthvert vægi?

Allmargir kjósendur hafa haft samband við ritstjóra þessarar vefsíðu, bæði í aðdraganda þingkosninganna 2009 svo og sveitarstjórnarkosninganna 2010, og spurt hvort auð atkvæði hafi eitthvert vægi í kosningalögum okkar. Svo er auðvitað ekki. Þau teljast til ógildra atkvæða samkvæmt kosningalögum.

Eina dæmið sem ritstjóri þekkir um að auð atkvæði hafi eitthvað að segja er frá Rússlandi eftir hrun kommúnismans. Þá var auðum seðlum úthlutað sætum eins og hverjum öðrum lista. Þessi auðu sæti voru þá vitaskuld ómönnuð. Síðar mun hafa verið horfið frá þessu en í þess stað kveðið á um endurkosningu (eða uppkosningu eins og það heitir í íslenskum lögum) ef auð atkvæði fóru yfir eitthvert tilgreint hlutfall.

Er þetta fyrirkomulag Rússa til fyrirmyndar? Varla það fyrra. Að skila auðu er að taka ekki afstöðu og eftirláta öðrum að taka hana fyrir sína hönd. Hugsum okkur ýkt dæmi. Segjum að mikil órói sé í hreppi þar sem kjósa skal 5 menn í hreppsnefnd. Nokkrir listar koma fram en 67% skila auðu. Þá fengi „auði listinn“ 4 sæti. Einhver þeirra lista sem buðu fram fengi væntanlega 5. sætið og sá sem það mannaði yrði einvaldur! Síðara útgáfan af rússnesku hugmyndinni er áhugaverðari: Að kosning skuli endurtekin, og með nýjum framboðsfresti, fari auð atkvæði yfir umtalsvert hlutfall.

ÞH í maí 2010