Hvað eru Bretar að hugsa?

Kosningum til neðri málsstofu breska þingsins er nýlokið þegar þetta er ritað, en þær fóru fram 6. maí 2010. Sem oft áður blossar upp umræða um það hvort breyta skuli kosningakerfinu þar í landi. Nú eru allir þingmenn, 650 að tölu, kosnir í einmenningskjördæmum. Atkvæðavægi er næsta jafnt. En vitanlega er útkoman langt frá því að vera hlutfallsleg. Ný samsteypustjórn í Bretlandi segist ætla að leggja valkosti í þessum efnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki er stefnt að því að hverfa til  hlutfallskosninga í neinni mynd heldur á að halda sig við einmenningskjördæmin en gera kosningarnar upp með nýjum hætti, hætta við meirihlutakosningu, þ.e. að sá sem fær flest atkvæði hljóti sætið hvort sem hann nær meiri hluta atkvæða eða ekki. Í fréttum kemur fram að uppgjörsaðferðin sem nýja stjórnin hyggjast beita sé sú sem þeir kalla Alternative Vote  (AV). Þetta er sértilvik af því sem engilsaxar nefna Single Transferable Vote (STV).

Í stjórnarfrumvörpum sem liggja fyrir Alþingi um persónukjör og jafnframt í stjórnarfrumvarpi um stjórnlagaþing er lagt til að beitt verði STV sem nefnt er forgangsröðunaraðferð í frumvörpunum. AV er sértilvik af STV, þ.e. þegar almennu reglunni, STV, er notuð til að fylla eitt sæti svo sem í einmenningskjördæmum eða í forsetakosningum. Í athugasemdum með frumvörpunum er einmitt tekið dæmi af forsetakosningum til að skýra málið og undirritaður hefur raunar lagt til á opinberum vettvangi að sú aðferð verði innleidd í forsetakosningum hérlendis.

Aðferðin (AV) gengur út á það að kjósendur forgangsraði frambjóðendum, eins mörgum og þeir kæra sig um. Fái enginn hreinan meirihluta atkvæða að 1. vali kjósenda skal finna þann frambjóðanda sem hefur fæst atkvæði að 1. vali. Hann er þá úr leik en atkvæði hans færð til þeirra frambjóðanda sem eru að 2. vali á seðlum greiddum honum. Dugi það ekki til að nú nái einhver frambjóðandi hreinum meirihluta er leikurinn endurtekinn o.s.frv. Aðferð þessi hefur verið notuð allt frá millistríðsárunum við forsetakosningar á Írlandi, svo að þekkt dæmi sé tekið.

Þingsæti í neðri deild breska þingsins eru 650, eins og fyrr segir, en kosningu í einu þeirra var frestað til 27. maí. Sætin 649 hafa skipst þannig á milli hinna þriggja stóru flokka: Íhaldsmenn  306, Verkamannaflokkur 258, Frjálslindir demókratar 57 en aðrir skipta á milli sín 28 sætum. Það er einkum skiptingin milli hinna þriggja stóru flokka sem horft er til. Miðað við heildaratkvæðatölu í öllu Stóra-Bretlandi (og uppgjör með d‘Hondtsaðferð) ættu Íhaldsmenn að fá 251, Verkamenn 202 og Frjálslindir 160 af sætum flokkanna þriggja. Erfitt er að spá í úrslitin með forgangsröðunaraðferðinni þar sem forgangur kjósenda liggur ekki fyrir en breskir spekingar telja að Íhaldsmenn myndu fá 281, Verkamenn um 262 og Frjálslindir um 79.

Það er því ljóst að Bretar eru ekki að stefna að hlutfallskosningum!

ÞH í maí 2010