Eitt þingsæti færist milli kjördæma við næstu kosningar

Í gildandi lögum um kosningar til Alþingis frá árinu 2000 er ákvæði sem er ætlað að tryggja að misvægi atkvæða fari ekki úr böndunum vegna búsetubreytinga. Verði tala kjósenda að baki þingsæta í einhverju kjördæmi meira en tvöfallt hærri en í því kjördæmi sem lakast er sett skal færa sæti frá því fyrrnefnda til hins síðarnefnda. Á þetta hefur tvívegis reynt. Í kjölfar kosninganna 2003 færði landskjörstjórn sæti frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis. Sagan endurtók sig eftir kosningarnar 2009 og verða því 8 þingsæti í Norðvesturkjördæmi við næstu kosningar (sem verða í síðasta lagi vorið 2013) en 13 í Suðvesturkjördæmi.

Áhugasamir hafa spurt: Ef þetta hefði verið sætaskiptingin í kosningunum vorið 2009 hvernig hefðu sæti skipst á milli flokkslistanna á landinu að því gefnu að atkvæðatölur hefðu ekki breyst? Það mætti búast við því að úthlutunin færi verulega úr skorðum. Minnsta breytingin væri auðvitað sú að sá listi sem fengi sætið á Suðvesturkjördæmi skilaði sæti í Norðvesturkjördæmi í staðinn. Svo einfalt er svarið ekki. Samfylkingin hefði hlotið nýja sætið í Suðvesturkjördæmi en Vinstri grænir misst sætið sem hverfur í Norðvesturkjördæmi. Síðan hefðu metin verið jöfnuð milli flokkanna innan Norðausturkjördæmis.

ÞH í maí 2010