Um persónukjör

Í þjóðmálaumræðu hefur persónukjör borið mjög á góma undanfarið misseri, þ.e. möguleikar kjósenda til að velja sér þingmannsefni á framboðslistum. Á árinu 2009 voru í tvígang lögð fram stjórnarfrumvörp, auk frumvarps þingmanna þriggja flokka, þar að lútandi. Stjórnarfrumvörpin eru til umfjöllunar í allsherjarnefnd á þinginu 2009-2010. Þau fjalla annars vegar um persónukjör við sveitarstjórnarkosningar og hins vegar við kosningar til Alþingis. Í athugasemdum við frumvörpin er að finna ýmsan fróðleik um efnið.

Í  pistli, Um persónukjör, sem vísað er til hér fyrir neðan, eru reifaðir helstu möguleikar í þessum efnum. Ítarlega er fjallað um tölulegt uppgjör á kosningum með persónukjöri. Sumt af efni pistilsins er birt, og þá í endurskoðari gerð, í athugasemdum við fyrrgreind frumvörp.

Á Íslandi, eins og víðast í kringum okkur, er það fyrirkomulag á þingkosningum að boðnir eru fram flokkslistar í einstökum kjördæmum.

Vald kjósenda til að hafa áhrif á það hvaða einstaklingar veljast á þing getur ýmist verið með þátttöku í prófkjörum af einhverju tagi eða með þeim hætti að kjósendum gefist á kjördegi kostur á að velja einstaklinga úr hópi frambjóðenda. Pistlinum er einkum ætlað að fjalla um aðferðir við síðari leiðina, þ.e. persónukjör í sjálfum kjörklefanum.

Farið er yfir þá kosti sem helst virðast koma til álita sé vilji til að auka möguleika á að hafa áhrif á val á þingmannsefnum. Gengið er út frá því að ekki sé verið að umbylta kjördæmaskipan eða kosningakerfinu að öðru leyti.

Um persónukjör (pdf)