Samanburður á úthlutunaraðferðum

Úthlutun sæta til framboðslista í hlutfalli við atkvæðatölur kemur víða við sögu. Viðfangsefnið er að úthluta tilteknum fjölda sæta til framboðslista, flokka, á grundvelli atkvæðatalna þeirra þannig að úthlutunin sé í einhverjum skilningi í sem bestu hlutfalli við atkvæðaskiptinguna. Fullkomið samræmi næst aldrei - nema þá að sætin séu jafnmörg og kjósendurnir! Sérhver úthlutunaraðferð byggir því á málamiðlun. Til er mýgrútur aðferða og allmargar eru í notkun.

Skipta má megninu af aðferðunum í tvo meginflokka: Kvótareglur og deilireglur.

Í kvótareglunum er fundinn kvóti atkvæða sem greiða þarf fyrir hvert úthlutað sæti. Fer fyrst sæti til þess flokks sem flest hefur atkvæðin. Fyrir þetta fyrsta sæti "greiðir" flokkurinn sem nemur kvótanum og er atkvæðatala flokksins lækkuð sem honum nemur. Næst er leitað að þeim flokki sem nú hefur flest atkvæði (og er þá fyrrnefndur flokkur með í leik en með skertri atkvæðatölu) o.s.frv. Að lokum kemur að jafnaði að því að enginn flokkur á eftir atkvæði eða atkvæðaleifar sem duga fyrir heilum kvóta atkvæða. Þá er haldið áfram að úthluta sem fyrr en nú á grundvelli stærstu leifa. Kvótareglur ganga því einnig undir samheitinu "reglur stærstu leifa". Algengasta kvótareglan er kennd við Hare. Þá er kvótinn það sem beinast liggur við, meðaltal atkvæða að baki sæta, þ.e. heildartala gildra atkvæða deilt með tölu sæta sem úthluta skal. Önnur allalgeng aðferð er kennd við Droop nokkurn. Kvótinn hjá honum er fenginn með sama hætti nema hvað deilt er með fjölda sæta að einu viðbættu. Útkoman er stundum hækkuð í næstu heiltölu fyrir ofan.

Deilireglur eru þannig útfærðar að deilt er í atkvæðatölu hvers flokks með runu deilitalna. Deildunum sem þannig fást er skipað í stærðarröð og er sætum úthlutað til hæstu deildanna, jafnmörgum og sætum sem úthluta skal. Tvær deilireglur njóta vinsælda, regla d´Hondts og regla Sainte-Lagües. Í þeirri fyrrnefndu eru deilitölurnar einfaldlega runa heiltalnanna 1, 2, 3 o.s.frv. en hjá Sainte-Lagüe oddatölurnar 1, 3, 5 o.s.frv. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er notað það afbrigði af reglu Sainte-Lagües að fyrstu deilitölunni er hnikað til og er hún höfð 1,4.

Regla d'Hondts hefur verið ráðandi í kosningalögum hérlendis með þeirri undantekningu að regla Hares var notuð á árabilinu 1987-1999 við úthlutun kjördæmissæta í alþingiskosningum.

Hér er að finna forrit til að úthluta sætum með helstu kvóta- og deilireglum. Niðurstöðurnar eru bornar saman.

UthlutunarAdferdir  (Excel skjal)