Staða landskjörstjórnar

Verkefnum landskjörstjórnar er að nokkru leyti lýst í stjórnarskránni, nr. 33/1944, en ítarlegri fyrirmæli um þau og önnur viðfangsefni landskjörstjórnar eru í lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

Í 2. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar segir að heimilt sé að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni þó að mörk kjördæma séu almennt ákveðin í lögum. Þá kemur fram í 5. mgr. sömu greinar að landskjörstjórn skuli breyta fjölda þingsæta ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi í því skyni að draga úr þeim mun.

Staða landskjörstjórnar er að þessu leyti stjórnarskrárvarin því almenna löggjafanum er óheimilt að fela öðrum þessi verkefni. Viðfangsefni landskjörstjórnar samkvæmt kosningalögum ná svo til ýmissa annarra þátta við undirbúning og framkvæmd kosninga en lýst er í stjórnarskránni.