Könnun á fjölda kjósenda að baki hverju þingsæti í kjölfar alþingiskosninganna 25. september 2021

1.10.2021

Í 8. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 segir að tíu þingsæti séu í Norðvesturkjördæmi og ellefu í Suðvesturkjördæmi. Landskjörstjórn er falið í 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar og 9. gr. laga um kosningar til Alþingis að reikna út hvort fjöldi kjósenda á kjörskrá að baki hverju þingsæti í einhverju kjördæmi sé helmingi lægri en í einhverju öðru kjördæmi. Sé svo skal landskjörstjórn færa eitt sæti í einu frá því kjördæmi þar sem fjöldinn er lægstur til þess kjördæmis þar sem fjöldinn er hæstur, allt þar til hlutfallið milli hæsta fjölda kjósenda að baki þingsæti og þess lægsta er komið undir tvo. Leiði þetta til breytinga á fjölda kjördæmissæta eftir kjördæmum tekur sú breyting gildi við næstu almennu alþingiskosningar.

Eftir alþingiskosningarnar 2003 var eitt kjördæmissæti fært frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis á þessum grundvelli. Niðurstaðan eftir alþingiskosningarnar 2007 varð að áfram ættu að vera níu þingsæti í Norðvesturkjördæmi og tólf í Suðvesturkjördæmi. Eftir kosningarnar 25. apríl 2009 kom í ljós að misvægið milli fjölda á kjörskrá í þessum tveimur kjördæmum hafði aukist svo að nauðsynlegt reyndist að flytja tvö þingsæti milli þeirra. Voru þá átta þingsæti í Norðvesturkjördæmi og þrettán þingsæti í Suðvesturkjördæmi. Þessi tilhögun þingsæta var síðan staðfest með auglýsingum landskjörstjórnar í Stjórnartíðindum eftir alþingiskosningarnar 27. apríl 2013, 29. október 2016 og 28. október 2017.

Samkvæmt meðfylgjandi útreikningum var staðan á misvægi atkvæða við kosningarnar 25. september 2021 þannig að hlutfall milli kjósenda á kjörskrá að baki hverju þingsæti þar sem þeir eru flestir og þar sem þeir eru fæstir er yfir tveimur. Er því nauðsynlegt að færa eitt þingsæti til viðbótar frá Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi.

Við næstu alþingiskosningar verða því sjö þingsæti í Norðvesturkjördæmi, sex kjördæmissæti og eitt jöfnunarsæti, en fjórtán í Suðvesturkjördæmi, tólf kjördæmissæti og tvö jöfnunarsæti. Í öðrum kjördæmum verður fjöldi þingsæta sá sem tilgreindur er í 8. gr. kosningalaganna.

Útreikningur sem liggur til grundvallar færslu þingsæta í kjölfar alþingiskosninga 2021