Hlutverk landskjörstjórnar við þjóðaratkvæðagreiðsluna
9. apríl næst komandi.

7.4.2011

Hlutverk landskjörstjórnar við þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl næst komandi.

Hlutverk landskjörstjórnar við atkvæðagreiðsluna er afmarkað í lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, sbr. lög nr. 23/2011. Verkefni landskjörstjórnar er samkvæmt lögunum tvíþætt:

  1. Landskjörstjórn skipar einstaklinga í hverju kjördæmi sem hafa það hlutverk að gæta andstæðra sjónarmiða við atkvæðagreiðsluna, talningu atkvæða og úrlaus ágreiningsmála. Á fundi landskjörstjórnar 18. mars sl. skipaði landskjörstjórn 12 einstaklinga til þess að gegna þessu hlutverki, einn fyrir hvora fylkingu í hverju kjördæmi. Upplýsingar um skipun umboðsmanna og um verkefni þeirra er að finna á vefsíðu landskjörstjórnar. Meginhlutverk þeirra er að fylgjast með framkvæmd talningar og ef ágreiningur verður milli yfirkjörstjórnar og umboðsmanna um gildi atkvæðaseðla geta þeir skotið honum til úrskurðar landskjörstjórnar. Á sama fundi skipaði landskjörstjórn einnig tvo umboðsmenn til þess að vera umboðsmenn á landsvísu.
  2. Að lokinni talningu atkvæða senda yfirkjörstjórnir eftirrit gerðabóka sinna ásamt þeim kjörseðlum sem ágreiningur hefur verið um milli yfirkjörstjórna og umboðsmanna. Landskjörstjórn auglýsir síðan með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til að úrskurða um ágreiningsseðla og lýsa úrslitum atkvæðagreiðslunnar. Miðað er við að landskjörstjórn birti auglýsingu sína í dagblöðum mánudaginn 11. apríl nk. Heimilt er að kæra ólögmæti atkvæðagreiðslunnar til landskjörstjórnar og skulu slíkar kærur sendar landskjörstjórn ekki síðar en tveimur dögum áður en landskjörstjórn kemur saman til að lýsa úrslitum atkvæðagreiðslunnar.

Að öðru leyti er framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar í höndum innanríkisráðuneytisins, yfirkjörstjórna, undirkjörstjórna, sýslumanna og sveitarstjórna í samræmi við lög nr. 91/2010 og lög nr. 24/2000.

Landskjörstjórn mun koma saman sunnudaginn 10. apríl nk. til þess að taka við eftirritum gerðabóka yfirkjörstjórna ásamt þeim kjörseðlum sem ágreiningur hefur verið um milli umboðsmanna og yfirkjörstjórnar og tilkynna um fund sinn þar sem úrslitum atkvæðagreiðslunnar verður lýst.


Landskjörstjórn