Auglýsing um kosningar til stjórnlagaþings

24.9.2010

Með vísan til 4. gr. laga um stjórnlagaþing, sbr. 7. gr. sömu laga, hefur forseti Alþingis ákveðið að kosning til stjórnlagaþings fari fram laugardaginn 27. nóvember nk.

Kjörgengir til stjórnlagaþings eru þeir sem eru kjörgengir við kosningar til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd til stjórnlagaþings eru þó ekki kjörgengir.

Framboðum skal skilað á eyðublöðum, sem hægt er að nálgast á vef landskjörstjórnar: landskjor.is og á vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins: kosning.is Á sömu vefsíðum er enn fremur að finna nánari upplýsingar um þau gögn og upplýsingar sem fylgja skulu framboði og um kosningarnar sjálfar.

Með framboði skal fylgja listi með minnst 30 og mest 50 meðmælendum, sem skulu fullnægja skilyrðum um kosningarrétt til Alþingis, og skrifleg yfirlýsing við framboðið frá hverjum meðmælanda, sem staðfest hefur verið af tveimur vottum.

Undirrituðum framboðum ásamt lista yfir meðmælendur skal skila til landskjörstjórnar ekki síðar en kl. 12.00 á hádegi mánudaginn 18. október nk. Póstfang landskjörstjórnar er: Landskjörstjórn, Alþingishúsinu við Austurvöll, b.t. ritara landskjörstjórnar, 150 Reykjavík.

 

Kosningarrétt til stjórnlagaþings eiga þeir sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Vegna atkvæðagreiðslunnar gera sveitarstjórnir kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té. Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis og skráðir voru með lögheimili í tilteknu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands þremur vikum fyrir kjördag (6. nóvember n.k.). Enn fremur skal taka á kjörskrá þá sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr. sömu laga og síðast áttu skráð lögheimili hér á landi í tilteknu sveitarfélagi.

Einstök sveitarfélög munu auglýsa með venjulegum hætti nánar um kjörstaðina skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna, m.a. hvenær þeir eru opnir, hvar þeir eru, hvernig skipt er í kjördeildir, o.fl. Kjósendur eru beðnir að kynna sér vel þær upplýsingar.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefjast frá og með 10. nóvember nk. og ljúka kl. 12.00 á hádegi föstudaginn 26. nóvember nk.

 

Reykjavík, 17. september 2010.

 

 

Ástráður Haraldsson 

 

Bryndís Hlöðversdóttir 

 

Þórður Bogason

Hrafnhildur Stefánsdóttir      

 

Þuríður Jónsdóttir