Landskjörstjórn bárust 525 framboð til stjórnlagaþings

22.10.2010

Við lok framboðsfrests á hádegi 18. október sl. höfðu landskjörstjórn borist 525 framboð til stjórnlagaþings. Frambjóðendur skiptast þannig eftir kynjum að konur eru 159 (30,3%), og karlar 366 (69,7%).

Landskjörstjórn vinnur nú að því að koma á framfæri ábendingum til einstakra frambjóðenda um úrbætur á framboðum þeirra. Landskjörstjórn kemur saman til fundar mánudaginn 25. október nk. til þess að taka endanlega afstöðu til framboðanna. Að því búnu mun landskjörstjórn ganga frá lista yfir frambjóðendur til birtingar á vef landskjörstjórnar, landskjor.is, og vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, kosning.is.