Auglýsing um talningu atkvæða í kosningum til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 og móttöku utankjörfundaratkvæða.

19.11.2010

Landskjörstjórn kemur saman að loknum kjörfundi kl. 22 laugardaginn 27. nóvember nk. til þess að opna atkvæðakassa og undirbúa talningu atkvæða í kosningum til stjórnlagaþings, sem fram fara sama dag. Atkvæðin verða talin í Laugardalshöll, Engjavegi 8 í Reykjavík, og hefst talningin kl. 9, sunnudaginn 28. nóvember nk. Úrslit kosninganna verða kunngerð strax að talningu lokinni.

Kjósendur sem greiða atkvæði utan kjörfundar skulu koma atkvæðum sínum til skila fyrir kl. 22 á kjördag. Koma skal atkvæðum til kjörstjórna í því sveitarfélagi þar sem kjósandi er á kjörskrá eða til landskjörstjórnar: Alþingishúsinu við Austurvöll (Skála), 150 Reykjavík. Enn fremur er kjósendum heimilt að koma utankjörfundaratkvæðum til yfirkjörstjórna og kjörstjórna í öðrum sveitarfélögum fyrir nefnt tímamark.

Brýnt er að kjósendur undirbúi sig fyrir kosningarathöfnina eins og kostur er, hafi með sér tilbúinn hjálparseðil og riti með skýrum hætti auðkennistölur þeirra frambjóðenda sem þeir hafa raðað á kjörseðilinn.

 

Landskjörstjórn, 18. nóvember 2010.