Stjórnlagaþing

Um kosningar til stjórnlagaþings

Alþingi samþykkti lög um stjórnlagaþing hinn 16. júní 2010 en þeim var breytt 9. september sama ár. Samkvæmt lögunum skal forseti Alþingis, í samráði við sérstaka stjórnlaganefnd, boða til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Miðað er við að 25 landskjörnir fulltrúar sitji stjórnlagaþing, en þeim getur fjölgað ef leiðrétta þarf vegna kynjasjónarmiða. Samkvæmt lögum skal, sé þess kostur, fjölga fulltrúum um allt að 6 í því skyni að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%. Fulltrúar á þinginu verða því á bilinu 25 til 31.

Stjórnlagaþing mun koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011. Því er ætlað að sitja í tvo mánuði, en getur sjálft ákveðið að ljúka störfum fyrr. Þá er stjórnlagaþingi heimilt að óska eftir því við Alþingi að starfstími þess verði framlengdur um allt að tvo mánuði.

Kosningaréttur

Þeir sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um kosningar til Alþingis hafa kosningarrétt til stjórnlagaþings, en í þeim kosningum er landið eitt kjördæmi og fer talning fram miðlægt á vegum landskjörstjórnar. Kjósendur greiða engu að síður atkvæði á sömu kjörstöðum og við síðustu alþingiskosningar.

Kjörgengi

Kjörgengir til stjórnlagaþings eru þeir sem eru kjörgengir til Alþingis, að undanskildum forseta Íslands, alþingismönnum og varamönnum þeirra, ráðherrum og nefndarmönnum í stjórnlaga- og undirbúningsnefnd stjórnlagaþingsins. Frambjóðendur þurfa að leggja fram vottuð meðmæli 30 til 50 kosningarbærra manna.

Eyðublöð fyrir frambjóðendur má finna með því að smella á flipa hér til hægri á síðunni