Landskjörstjórn og stjórnlagaþing

Hlutverk landskjörstjórnar

Í II. kafla laga um stjórnlagaþing, þar sem fjallað er um kosningar til stjórnlagaþings, eru landskjörstjórn fengin umfangsmeiri verkefni en í almennum þingkosningum. Þannig skal landskjörstjórn auglýsa kosningarnar og framboðum skal skilað til hennar í síðasta lagi kl. 12 á hádegi 18. október nk. Framboðunum skal skila á eyðublöðum sem landskjörstjórn hefur útbúið í samráði við dómsmálaráðuneytið. Landskjörstjórn auglýsir enn fremur á vefsíðu sinni, landskjor.is, og á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins, kosning.is, þá sem eru í framboði. Í auglýsingunni skal greina nöfn frambjóðenda, starfsheiti þeirra og sveitarfélög þar sem þeir eru búsettir.

Landskjörstjórn raðar frambjóðendum í stafrófsröð, þar sem fyrsta nafn er valið af handahófi og úthlutar þeim um leið auðkennistölu, sem einnig er valin af handahófi. Auðkennistalan gerir kjósandanum kleift við sjálfa kosninguna að forgangsraða frambjóðendum á kjörseðilnum að sínu eigin vali.

Atkvæði sem greidd eru utan kjörfundar verða að hafa borist landskjörstjórn (Alþingishúsinu við Austurvöll) eða kjörstjórn í því sveitarfélagi sem kjósandinn er á kjörskrá fyrir kl. 22 á kjördag, 27. nóvember 2010.

Talning atkvæða fer fram fyrir opnum tjöldum hjá landskjörstjórn. Áður auglýsir landskjörstjórn hvar hún mun koma saman til að opna atkvæðakassa og hefja talningu atkvæða. Landskjörstjórn úrskurðar enn fremur um gildi atkvæða sem hafa einhverja annmarka.